Áhyggjur

Posted: janúar 29, 2026 in Samfélag
Efnisorð:, ,

Þetta eru vonandi óþarfa áhyggjur.. en með fáfróðan, illa gefinn, óupplýstan – og nú bætast við elliglöp / heilabilun – einstakling með mikil völd þá hef ég áhyggjur. Raunverulega mjög miklar áhyggjur.

Það hjálpar ekki að viðkomandi er með mikilmennskubrjálæði á háu stigi, hégómagirnd sem sprengir alla skala, rað-fýlupúki út af öllu og engu – og í rauninni illa innrætt kvikyndi sem ber enga virðingu fyrir mannslífum, hvað þá mannréttinum – að ónefndum lögum og reglum.

Það sem helst virðist kveikja á glórulausum aðgerðum er óttinn við að upplýsingar um barnaníð og/eða landráð komist í hámæli.. þannig að við vitum aldrei hvenær næsta klikkun kemur.

Ég er ekki að grínast – alls ekki – því kannski er vissara að flytja sig aðeins til á meðan hann ruglar ítrekað saman Íslandi og Grænlandi og hótar innrás í Grænland.

Að drulla yfir fórnarlömb

Posted: janúar 20, 2026 in Umræða

Eins sorglegt og tilgangslaust morðið vestanhafs var þá er eiginlega enn sorglegra að sjá aumkunarverða tilburði til réttlætingar í kjölfarið.

Allt er tínt til að ata fórnarlambið auri, líkast til er megnið af því hreinn uppspuni, amk. eru engar tilvísanir í gögn, eingöngu fullyrðingar út og suður.

Það er verið að tína til atriði sem morðinginn hefði aldrei getað vitað og breyta því engu um sekt hans.

Og auðvitað – þó svo að eitthvað af þessu væri rétt þá réttlætir það aldrei, aldrei morð, hvað þá að halda áfram að skjóta, að ég tali nú ekki um að neita fórnarlambinu um læknisaðstoð.

Það er sorglegt að fylgjast með.

Þetta nær jafnvel hingað – ég get ekki mögulega skilið hvað veldur því að íslenskir stuðningsmenn dæmds glæpamanns, nauðgara og líklega barnaníðings í annarri heimsálfu – sem þykist vilja gera það ríki máttugra en það var – eru að missa sig í að drulla yfir fórnarlamb morðs?

Vill þetta lið fá svona umhverfi hér heima? Fólk myrt af handahófi og morðið réttlætt vegna þess að stuðningsmennirnar halda með “sínu liði” hvað sem á gengur. Jafnvel þó liðið sé í annarri heimsálfu og hafi sem aðal markmið að auka mátt síns ríkis á kostnað annarra, þar með talið okkar.

Athyglisdreifingin

Posted: janúar 12, 2026 in Spjall, Stjórnmál, Umræða

Ég efast um að innrásin til að taka yfir stjórn Venesúela hafi verið til að beina athyglinni frá skjölum sem sannreyna mikla og nána vináttu forsetans vestanhafs við helsta skipuleggjanda mansals síðustu áratuga – að ógleymdum nokkuð öruggri vissu um barnaníð. Það hefur einfaldlega komið í ljós að stuðningsmönnum forsetans er slétt sama um barnaníð, þetta var einfaldlega þeirra „verkfæri“ í baráttunni til að vinna síðustu forsetakosningar, þar sem öll meðöl voru leyfileg. Sumir hafa þóst kaupa fráleitar, hlægilegar og mótsagnakenndar skýringar. Aðrir hafa beinlínis viðurkennt að þeim sé slétt sama þó gaurinn hafi misnotað börn.. hann sé jú að sinna mikilvægri baráttu fyrir kristilegum gildum.

Ég held að þetta hafi snúist um að það kom fram daginn áður að kynntar voru upplýsingar um að það væri hafið yfir allan vafa að gaurinn hafi staðið á bak við valdaránstilraun fyrir fimm árum. Og kannski enn verra fyrir meðlimi sértrúarsafnaðarins.. hann hafi oftar en einu sinni viðurkennt að hafa skíttapað kosningunum 2020.

Þannig að ég ætlaði að leggja til að Grænlendingar og Danir og Íslendingar gætu dregið andann rólega í einhverja mánuði, að minnsta kosti þar til fáfróða, getulausa, spillta, viðriðnið ætlaði sér að reyna að aflýsa kosningunum næsta haust – og klára endanlega að breyta ríkinu sem stærir sig af forystu í lýðræði í einræðisríki.

En svo kom þetta skelfilega morð vanhæfu klikkhausanna í sérsveitum forsetans og blákaldar og óskammfeilnar lygar hans um atburðarásina.

Þannig að mig grunar að ekki sé langt í næstu innrás í fullvalda ríki frá sjálfskipuðum „friðarsinna“.

Hefði einhver reynt að skrifa bók fyrir nokkrum áratugum sem lýsti svona atburðarás hefði hún verið hlegin út af borðinu. Sérstakt að þurfa að upplifa þetta…

Barði Valdimarsson

Posted: janúar 9, 2026 in Minningar
Efnisorð:

Barði Valdimarsson lést síðasta sunnudag í Kaupmannahöfn.

Við áttum langa, en kannski eitthvað slitrótta, samleið gegnum lífið, vissum hvor af öðrum í barna- og gagnfræðaskóla – en kynntumst ekki almennilega fyrr en í menntaskóla MK.

Tíminn þar einkenndist kannski af mörgum áhugamálum og það var einhvern veginn alltaf yfirdrifið nóg að gera.. spiluðum bridds, fótbolta, kom fyrir að við fengum okkur í glas (jafnvel heimatilbúið), talsvert mikið á ferðinni á rúntinum gamla, duttum inn í Sigtún og Óðal og jafnvel Hollywood, kannski Klúbbinn. Og við fórum í bíó – vorum gjarnan búnir að sjá allar myndir sem voru í boði í fjölmörgum bíóhúsum borgarinnar – og Fjalakettinum.

Við sóttum svo sameiginlega um stöðu framkvæmdastjóra Fjalakattarins, fengum starfið og sinntum því veturinn 1978-1979. Þeirri lotu lauk svo með eftirminnilegri ferð til London vorið 1979.

Ósætti Barða við yfirvöld skólans urðu til að við stofnuðum Fræbbblana, ásamt fleiri vinum. Hann hætti svo nánast strax enda ekki mikinn áhuga á tónlistinni, amk. ekki á þessum tíma.

Við héldum lengi vel góðu sambandi, hann og Anna Sigga voru meðal okkar bestu vina þegar börnin voru ung – hef ekki tölu á kvöldunum sem við kíktum til þeirra (jafnvel með Alexöndru í burðarrúmi) að spila bridds.

Eftir að Barði flutti út í lok síðustu aldar slitnaði sambandið en við fórum að hittast aftur upp úr áramótum. Þá var Tina komin til sögunnar – og seinna Duna. Ég man að eitt af fyrstu skiptunum sem við hittumst á þessari öld sagði Iðunn eftir gott matarboð, “ég var búinn að gleyma hvað hann Barði er skemmtilegur”

Við reyndum að hittast reglulega, þó það væri ekki oft, en héldum ágætu sambandi í gegnum samfélagsmiðla og síma.

Síðustu árin var Barði orðinn mjög veikur, hvert áfallið af öðru kom en hann hristi þau jafn harðan af sér, þurfti auðvitað að standa undir viðurnefninu sem hann gaf sjálfum sér, “Barði harði”. Ég ætla ekki að rekja sjúkdómssöguna, það eru mörg ár síðan hann átti að eiga lítið eftir, en alltaf komst hann aftur á ról. Á endanum varð annað Covid tilfellið það sem hann réði ekki við. Þegar við heyrðumst síðast, núna í desember, virtist hann bjartsýnn á að ná þokkalegri heilsu og við vorum að tala um að finna tíma til að hittast.

Innilegar samúðarkveðjur frá okkur til fjölskyldunnar.

Fréttirnar á morgnana

Posted: janúar 8, 2026 in Samfélag
Efnisorð:, ,

Af gömlum vana byrja ég flesta morgna á að kíkja á fréttir.. og skal játa að ég er alltaf jafn undrandi á að ekki sé búið að skjót’ann. Eða hann hafi amk. hrokkið upp af af sjálfsdáðum.

Ekki misskilja. Alls ekki misskilja. Ég er alls ekki, engan veginn og aldrei að vonast eftir þessu.

Fyrir það fyrsta þá finnst mér ekki til fyrirmyndar að óska einhverjum dauðdaga, jafnvel verstu illmenni mannkynssögunnar eiga fjölskyldu og sumar hverjir jafnvel einhverja eiga vini.. Og ekki mæli ég ofbeldi bót í pólitískum tilgangi, það er sjaldnast rétta leiðin.

En aðallega þá finnst mér skipta verulegu máli að hann og hans hyski fái makleg málagjöld og dúsi sem lengst á bak við lás og slá. Þjóðir læra mest af því að taka á svona illþýði og úrhrökum sem tuddast til valda af festu og með lögum þar sem virkt og sanngjarnt réttarkerfi klárar málin.

Og svo óttast ég verulega að ef hann endar sem “fórnarlamb” þá verði allt eins líklegt að eftir tvö þúsund ár eða svo verði öflugur trúarsöfnuður, klofinn í mörg hundruð deildir, jafnvel ríkisrekinn sem tilbiðji þetta viðundur. Það er jú nægilega stór hópur sem trúir öllu í blindni sem frá honum kemur og afneitar allri gagnrýni, öllum óþægilegum staðreyndum og sér ekki í gegnum einföldustu og augljósustu lygar. Táknið yrði væntanlega riffill eða hríðskotabyssa.. nú eða derhúfa.

Og ekkert HM í fótbolta á næsta ári

Posted: desember 5, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Upp á síðkastið hef ég verið að (reyna að) minnka fótbolta áhorf og tíma sem ég tek í að fylgjast með fréttum og umræðu. Það gengur kannski ekkert sérstaklega vel en mjakast.

Ekki hafði ég hugsað mér að fylgja mikið með HM karla í fótbolta á næsta ári, sérstaklega ekki leikjum sem spilaðir verða í Ríkjasambandi Ameríku – og eftir að íslenska liðið missti af þátttöku varð þetta nú enn minna spursmál.

Ég lét mig hafa það að horfa á HM 2022 í Katar með “óbragð í augum og eyrum”. Mér fannst vesaldómur stjórnenda FIFA ekki mega eyðileggja þessa hátíð, einhverjar leifar voru enn af þeirri hugmynd – sem var staglast á þegar ég var yngri – að fótboltinn væri utan við pólitík. Og að þarna hefðu verið gerð gróf mistök sem erfitt hefði verið að bakka út úr – og yrðu í það minnsta ekki endurtekin. Ég var að reyna sýna lit og forðast að styrkja helstu stuðningsaðila mótsins, en komst fljótt að því að ég keypti aldrei neitt frá þeim hvort sem var!

Í öllu falli, FIFA beit heldur betur höfuðið af skömminni og ég hef ekki geð í mér að horfa á þetta.

Leiðir skilja við Pírata

Posted: nóvember 29, 2025 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:,

Þá á ég ekki lengur samleið með Pírötum..

Þetta hefur reyndar verið sérstakt samband, hreyfingin varð til í einfeldningslegri og beinlínis hættulegri baráttu gegn höfundarrétti – ég reifst talsvert við marga liðsmenn á sínum tíma.

En þrátt fyrir nafnið þá fjaraði þetta út – eftir stóð barátta fyrir heiðarlegum stjórnmálum, gagnsæi, mannréttindum og nýrri stjórnarskrá. Allt hlutir sem mér fundust mjög mikilvægir. Ekki spillti hversu öflugir einstaklingar voru í starfi og framboði fyrir Pírata (best að nefna engin nöfn, ég myndi gleyma einhverjum sem ætti skilið að ég nefndi).

En í dag var Alexöndru Briem hafnað í formannskjöri. Ekki ætla ég að láta eins og það skipti ekki máli að Alexandra er dóttir mín en það er ekki aðalatriðið.

Það sem ég get ekki sætt  mig við er að Alexandra hefur verið ótrúlega dugleg að vinna að stefnu flokksins, óþreytandi að starfa innan félagsins, sívinnandi fyrir kosningar að styðja frambjóðendur – hvort sem hún var sjálf í framboði eða ekki.

Og Alexandra hefur unnið mjög vel í borgarstjórn Reykjavíkur síðustu kjörtímabil, ekki auðvelt starf og auðvitað ekki hægt að gera svo öllum líki – en ég held að ég geti fullyrt að hún hafi verið vel liðin af samherjum, andstæðingum og samstarfsfólki.

Píratar eru í vandræðum, eftir slaka kosningu fyrir ári síðan.

Ég held að dagar Pírata séu taldir ef þetta er hugarfarið, vanþakklæti og vantraust eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann.

Mögulega væru Píratar ekki í vandræðum ef þeir sem töldu rétt að taka þátt í að kjósa formann hefðu verið virkir í starfi flokksins.

Eru þjóðir til?

Posted: nóvember 27, 2025 in Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Mér var fyrir löngu bent á þá ágætu reglu að spyrja ekki spurningar ef svarið skipti ekki máli.

Ég sé að það er að spretta upp einhver kynþáttahyggja og henni tengd “rasismi” sem snýr að mikilvægi þess að vera Íslendingur og vernda íslensku þjóðina fyrir “utanaðkomandi” áhrifum.

Það vefst hins vegar yfirleitt fyrir þessum talsmönnum að skilgreina hvað það er að vera Íslendingur, oftast sýnist mér skilgreiningin miða við það sem hentar hverjum og einum!

Grunnurinn virðist vera á að fólk þarf að geta rakið ættir sínar í báða leggi, sem lengst aftur í tímann, helst til þeirra sem námu hér land. Hversu langt aftur þarf að fara virðist takmarkast við stöðu hvers og eins..

Nú veit ég ekki hversu mikil blöndun hefur verið hér, Írar, erlendir sjómenn, þrælar sem voru sóttir, fólk sem settist hér að á síðustu öld, fólk sem fæddist erlendis – svo eitthvað sé nefnt.

En ef skilgreiningin er að vera beinir afkomendur norskra landnema, eru þeir þá ekki Norðmenn frekar en Íslendingar?

Og Íslendingar þá ekki til?

Og ef við færum þá skilgreiningu yfir aftur á Norðmenn þá eru þeir heldur ekki til. Né nokkur önnur þjóð ef út í það er farið.

Fótbolti, kominn tími á frí?

Posted: október 29, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Kannski er kominn tími til að taka hlé frá því að horfa á og fylgjast með fótbolta.

Auðvitað skiptir fótbolti ekki miklu svona fyrir gang heimsmála en mér hefur nú samt fundist gaman að horfa á góðan fótbolta – ekki síst síðustu árin þegar Blikar hafa (ekki bara konurnar) náð frábærum árangri og spilað skemmtilegan fótbolta.

Það hefur nú reyndar ekki verið gefandi að fylgjast með “mínum mönnum” á Englandi, þeas. Derby County, en nálgun Arsene Wenger hjá Arsenal heillaði mig og ég fór svona að halda með þeim í efstu deild. Enda mikið af stuðningsmönnum þeirra í fjölskyldunni.

En það eru nokkur atriði sem hafa verið að drepa áhugann.

Fyrir það fyrsta þá er ég algerlega búinn að fá nóg af “molbúahættinum” í dómgæslu hér á landi og að dómarar séu ekki fyrir löngu komnir með nauðsynlega lágmarksaðstoð. Þetta er svolítið eins og að horfa á bíl á sumardekkjum fastan í snjóskafli.

Ekki hjálpa síðustu atburðir hjá Blikum þar sem mér hefur fundist furðulega staðið að þjálfaramálum og ekki til marks um þá langtíma framtíðar sýn á hvernig á að þróa liðið áfram og vanda val þjálfara..

Annars staðar hefur hegðun Arsenal dregið verulega úr áhuga mínum á félaginu, auðvitað þegar allt stefnir í gott tímabil.

En ég er svo furðulegur þegar kemur að fótbolta, að það skiptir mig miklu meira máli að hafa umhverfið í lagi, að liðin spili góðan og skemmtilegan fótbolta. Árangur talinn í titlum er minna atriði. Gott og vel, ekki ætla ég að reyna að segja að titlar og árangur í Evrópu skipti engu máli, en það er meira virði sem afleiðing af því að spila vel – frekar en að tuddast í gegnum einhverja sigra með Melavallar spark-og-spretta bolta og fá hvað eftir annað vafasamar ákvarðanir dómara eftir að hafa hamast í dómurum með hallærislegum leiksýningum.

Fótbolti og þjálfarar

Posted: september 20, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Það hefur eitthvað borið á hugmyndum um að skipta um þjálfara hjá meistaraflokki karla í fótbolta hjá mínu félagi, Breiðablik.

Þetta er furðuleg umræða og lyktar af einhverju allt öðru en framtíðarsýn fyrir félagið.

Ef við þekkjum sögu fótboltans þá eru þau félög sem hafa náð ítrekuðum árangri til lengri tíma ekki þau félög sem eru stöðugt í örvæntingu að skipta um þjálfara.. jú, jú, það eru til undantekningar, en ekki margar.

Blekkingin liggur í því að það að skipta um þjálfara getur stundum kallað á að leikmenn þurfi að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það vinnast kannski 2-3 leikir áður en dottið er í sama farið og jafnvel verra far.

Enn líklegri blekking er aðhvarf að meðaltali, lið sem hefur verið að ná árangri sem er undir væntingum í nokkrum leikjum er líklegt til að safna stigum í næstu leikjum. Ég man ágætt dæmi þegar ég var í stjórn og formaður meistaraflokksráðs, það hafði gengið illa og háværar kröfur voru uppi um að reka þjálfarann, mikið áreiti. Við ákváðum að láta þjálfarann klára tímabilið, næstu tveir leikir, gegn, þáverandi stórveldum, unnust báðir.. ef við hefðum skipt um þjálfara hefði þjálfaraskiptunum eflaust verið þakkað.

Auðvitað getur komið upp sú staða að það sé kominn tími á þjálfaraskipti, en skýringar fyrir þeim liggja oftar en ekki í sérstökum aðstæðum, sem alls ekki eru sýnilegar utan félagsins og hafa lítið með skammstímasjónarmið að gera.

Í öllu falli, núverandi þjálfari hefur náð ótrúlega góðum árangri, Íslandsmeistaratitill á fyrsta keppnistímabili og þátttaka í Sambandsdeildinni á því næsta.

Ég kann ekki skýringar á slöku gengi í síðustu leikjum, mig grunar að þær séu margar og fráleitt að kenna þjálfaranum einum um.

Það er svo auðvitað aukaatriði, en enginn af þessum spekingum hefur svo mikið sem komið með óljósa hugmynd um hver ætti að taka við.

Kannski hugmynd fyrir stuðningsmenn félagsins að láta frekar heyra í sér á öðrum vettvangi.